Skip to content

Sýning á verkum nemenda

30 nemendur úr Fellaskóla tóku síðastliðið vor þátt í að útbúa listaverk á sýninguna ÚTHVERFI í samstarfi við Halldór Ásgeirsson myndlistarmann. Eitt af markmiðum sýningarinnar var að vinna verk í samvinnu við íbúa hverfisins. Nemendur unnu verkin undir handleiðslu Gretu S. Guðmundsdóttur myndmenntakennara Fellaskóla. Halldór stækkaði síðan helming myndanna og setta á fána sem í vor blöktu á fánastöngum á hólnum vestan við skólann. Frummyndirnar voru svo sýndar á samsýningunni ÚTHVERFI í Gerðubergi í sumar og fánarnir blöktu víða um hverfið í sumar. Í haust voru fánarnir svo hengdir upp í hátíðarsal skólans og þar er hægt að skoða þessi fjölbreyttu og glæsilegu verk nemenda. Jafnframt útbjó Halldór kynningar­veggspjald um verkefnið. Á tungumáladeginum sem haldinn var hátíðlegur í lok september afhentu Halldór og Greta þeim nemendum sem tóku þátt í verkefninu eintak af veggspjaldinu sem inniheldur myndir og sögu verkefnisins. Við í Fellaskóla erum mjög ánægð með hvernig til tókst og þökkum Halldóri, Gretu og nemendunum 30 kærlega fyrir. Jafnframt hvetjum við alla til að koma við í Fellaskóla og skoða fánana.