Skip to content

Nemendur taka þátt í Barnaþingi

Við erum stolt að kynna þrjá nemendur okkar sem taka þátt í Barnaþingi á vegum Umboðsmanns barna, þau Julia Newel og Davíð Júlían Jónsson í 10. bekk og Bjork Honrejas Cagatin í 9. bekk. Setning barnaþings og hátíðardagskrá hefst í dag fimmtudaginn 21. nóvember og Þjóðfundur barna verður á morgun föstudaginn 22. nóvember.
Barnaþingi er ætlað að efla börn til þátttöku í lýðræðislegri umræðu um málefni sem snerta þau og veita sjónarmiðum þeirra farveg inn í almenna stefnumótun og þjóðfélagsumræðu í samræmi við 12. gr. Barnasáttmálans. Áhersla verður lögð á möguleika barna á að hafa áhrif á eigin líf og umhverfi. Leitað verður sjónarmiða barna um með hvaða hætti þau upplifa áhrif eða áhrifaleysi í daglegu lífi og hvað þeim finnist mikilvægast að stjórnvöld fjalli um. Tillögur barnaþingsins munu hafa bein áhrif á aðgerðaráætlun sem nú er í undirbúningi um aukna þátttöku barna í stefnumótun sem byggð er á samþykkt ríkisstjórnarinnar frá því í mars 2019.
Niðurstöður barnaþingsins verða afhentar ríkisstjórn að þingi loknu og mun embætti umboðsmanns barna fylgja eftir tillögum og ályktunum þingsins fram að næsta barnaþingi að tveimur árum liðnum. Með því móti skapast reglubundinn vettvangur fyrir börn til að láta skoðanir sínar í ljós og möguleikar á að fylgja eftir þeim hugmyndum og tillögum sem þar koma fram. Þá er barnaþingi ætlað að styðja við lýðræðislega þátttöku í grunnskólum og valdefla börn, ekki aðeins þau sem fá boð um þátttöku á þinginu heldur öll börn í landinu.