Skip to content

Stelpur filma

Sex stelpur úr Fellaskóla, þær María, Alexsandra, Magdalena, Þórey, Natalía og Agnes, úr 8. og 9.bekk, voru valdar til að taka þátt í verkefninu Stelpur filma! Verkefnið er unnið í tengslum við Reykjavik International Film Festival (RIFF). Markmið verkefnisins var að kveikja áhuga stelpna á kvikmyndagerð til þess að fá fleiri konur inn í geirann.

Það að fór fram í vikunni 7.-11.sept. sl. Verkefnið fólst í kvikmyndanámskeiði, þar sem stelpurnar lærðu öll helstu grunnatriði kvikmyndagerðar, þær lærðu kvikmyndatöku, að klippa, handritagerð, persónusköpun o.fl. Hópurinn samdi í sameiningu handrit að stuttmynd sem fjallaði um vinkonur sem dreymdi um að baka bestu súkkulaðiköku í heimi og ferðuðust því til Belgíu til að finna besta súkkulaði í heimi til að nota í kökuna.

Þegar handritið var tilbúið þá hófust æfingar, þar sem stelpurnar skiptu niður hlutverkum, æfðu línurnar og ákváðu staðsetningar. Seinni hluti vikunnar fór svo í upptökur og eftirvinnslu. Myndin fékk nafnið Leitin að súkkulaðinu og var frumsýnd fyrir nemendur skólans fim. 17.sept. – Myndin verður svo einnig sýnd á RIFF 24.sept. – 4.okt við hátíðlega athöfn.

Aðspurðar sögðu stelpurnar að það hafi verið gaman að taka þátt, sérstaklega fannst þeim skemmtilegt að hitta Baltasar Kormák, sem sagði þeim frá sínum ferli. Upptökurnar voru líka spennandi en erfiðast fannst þeim að klippa myndina, þá aðallega að velja hvaða klippur ætti að nota. Stelpurnar voru sammála um að verkefnið kveikti áhuga þeirra á kvikmyndagerð og þær væru alveg til í að búa til fleiri myndir seinna. Ritað af Maríu, Alexöndru með aðstoð Kristínar Ýrar.