Stoðþjónusta

Home/Stoðþjónusta
Stoðþjónusta 2017-03-05T11:12:12+00:00

Almenn bekkjarnámskrá nær til allra nemenda í námshópi eða í bekk. Í einstaka tilvikum getur þó verið nauðsynlegt að bregða frá almennri námskrá og skal það þá gert með einstaklingsnámskrá. Einstaklingsnámskrá er mikilvæg til að mæta menntunarlegum þörfum einstakra nemenda með það markmið að tryggja réttindi, virka þátttöku og hámarksárangur þess nemanda sem hún er gerð fyrir, í samfélagi með öðrum nemendum í skóla. Líkt og skóla- og bekkjarnámskrár eru einstaklingsnámskrár ávallt innan ramma almennrar námskrár og hafa skýra tengingu við bekkjarnámskrá viðkomandi námshóps eða bekkjar.

Verkefnastjóri sérkennslu ber ábyrgð á að gerð sé einstaklingsnámskrá fyrir nemanda sem þarf á sérstökum stuðningi að halda og er hún unnin í samvinnu umsjónarkennara, sérkennara og annarra fagaðila eftir atvikum.
Námskráin er ætíð unnin í samstarfi við foreldra og í samráði við nemandann eins og kostur er og endurskoðuð reglulega,samkvæmt 11. gr. reglugerðar nr. 585/2010. Taka skal tilliti til ákvarðana þeirra teyma sem stofnuð hafa verið um nemandann.

Einstaklingsnámskrá tekur til námslegra og/eða félagslegra þátta, til hluta eða allra þátta skólaveru nemandans. Námsáherslur, námsefni og kennsluaðferðir eru aðlagaðar þörfum nemandans og í tengslum við líf hans. Námsmarkmið eru skýr og skilgreind. Í námskránni kemur fram hvernig nemandanum er mætt í skóla án
aðgreiningar og þar skulu koma fram þær upplýsingar sem gagnlegar eru varðandi nám, skólagöngu og virka þátttöku hans. Í einstaka námsgreinum getur áherslan verið á félagslega færni en í öðrum geta markmið nemandans haft beina skörun við markmið bekkjar- og/eða skólanámskrár.

Eftirfarandi þættir eru hafðir í huga við einstaklingsnámskrárgerð:

 • Heildaraðstæður nemandans.
 • Mat á styrkleikum nemandans og mikilvægustu áskorunum.
 • Teymi og/eða samstarf um nemandann við aðila innan og utan skólans,hverjir, hvernig.
 • Nám og námsaðstæður:
  • Hindranir í námsumhverfi, hvernig draga má úr áhrifum þeirra eða
   ryðja þeim úr vegi.
  • Tenging við bekkjar- og aðalnámskrá.
  • Námsmarkmið og leiðir.
  • Námslegur stuðningur, í hverju felst hann.
  • Námsgögn og námsumhverfi.
  • Námsmat og mat á framvindu.
 • Félagsstaða og félagslegt umhverfi:
  • Hindranir í félagslegu umhverfi, hvernig draga má úr áhrifum þeirra eða ryðja þeim úr vegi.
  • Félagsleg markmið og leiðir.
  • Námsgögn
  • Félagslegur stuðningur, í hverju felst hann.
  • Mat á framvindu.
 • Endurmat og ábyrgðaraðilar

Í Fellaskóla er áhersla lögð á þjónustu við nemendur. Margvíslegri nemendaþjónustu er ætlað að koma til móts við ólíkar þarfir nemenda og mæta þeim sem þurfa á aðstoð að halda um lengri eða skemmri tíma.

Einstaklingsáætlun er áætlun sem nemandi setur sér fyrir ákveðið tímabil í samvinnu við kennara sinn og foreldra, gjarnan í foreldraviðtali og hefur til þess ákveðið eyðublað eða form.

Einstaklingsáætlun tekur almennt mið af getu nemandans, áhuga og námsstíl. Í áætluninni kemur fram hvaða markmiðum nemandinn hyggst ná í einstökum námsgreinum. Oft er tilgreint hvernig árangurinn verði metinn

Tilfærsluáætlun er skrifleg greinargerð um náms,-starfs, og félagslega stöðu nemenda sem stundað hafa nám eftir einstaklingsnámskrá í grunnskóla eða leikskóla. Markmiðið er að veita raunhæfar upplýsingar um
nemandann milli skólastiga. Einnig er markmiðið að geta boðið nemandanum upp á nám við hæfi strax við upphaf skólagöngu. Í reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunn-og framhaldsskólum eru ákvæði um slíkar tilfærsluáætlanir þar sem áhersla er á að taka heildstætt á stöðu til nemandans m.a. með það að markmiði
að tryggja viðeigandi menntun í framhaldsskóla, stuðla að virkri þátttöku í samfélaginu og síðar í atvinnulífinu.

Áætlunin er unnin í samstarfi milli nemandans, forráðamanna, sérkennara og námsráðgjafa. Fyllt er út eyðublað með bakgrunnsupplýsingum um nemandann þar sem fram koma auk almennra upplýsinga ýmislegt um kunnáttu hans, leikni, áhugasvið, námsaðferðir sem henta honum best og hjálpartæki (ef það á við), vonir og væntingar hans til framtíðar, lestrarfærni svo eitthvað sé nefnt. Þá er greint frá þeim stuðningi sem nemandinn hefur notið í grunnskóla til þessa. Félagslegri færni og hvort nemandinn taki lyf. Loks ritar sérkennari eða námsráðgjafi stutta lýsingu á viðkomandi nemenda með tilliti til náms,-starfs- og félagslegra þátta.

Í 10. gr. reglugerðar um nemendur með sérþarfir nr. 585/2010 er grunnskólum gert að vinna árlega heildaráætlun um stuðning við nemendur í samræmi við ólíkar þarfir þeirra. Áætlunin er hluti af heildarskipulagi skólans og tekur til allra þátta skólastarfsins. Annars vegar er hún hluti af og styður við skóla án aðgreiningar og hins vegar er henni ætlað að tryggja nemendum sérstakan stuðning og laga aðstæður að þörfum margbreytilegs nemendahóps.

Áætlunin er lýsing á því stuðningskerfi sem skólinn hefur skipulagt vegna nemenda sem á þurfa að halda vegna sérstakra þarfa sinna. Í henni er gerð grein fyrir hvernig sérstökum stuðningi við nemendur er háttað í almennu
skólastarfi án aðgreiningar og hvernig stuðningur og sérkennsla er skipulögð innan og utan námshópa. Þar kemur fram hvernig stoðkerfi skólans er uppbyggt, hverjir koma þar að, markmið þess og hvernig það tengist út í alla þætti skólastarfsins

Þegar það á við nýtir skólinn sér ráðgjöf og þjónustu Keilufells, Brúarsels og Brúarskóla. Þegar sótt er um fyrir nemendur í slík sérúrræði eða sérskóla er slík umsókn unnin í samstarfi við forráðamenn nemandans og hafa þá öll úrræði skólans verið reynd til þrautar.

Sérdeild fyrir einhverfa
Í skólanum er starfrækt ein af fjórum sérdeildum borgarinnar fyrir einhverfa. Umsóknum í deildina skal skilað til skóla- og frístundasviðs en inntökuteymi á vegum sviðsins metur umsóknir og tekur ákvarðanir um inntöku. Við deildina starfa þroskaþjálfar og stuðningsfulltrúar. Deildinni er ætlað að veita einhverfum börnum þjálfun og kennslu. Unnið er samkvæmt Teacch-vinnubrögðum og atferlismótunarstefnu Lovas. Nemendur fá einstaklingsmiðaða kennslu, þar sem unnið er samkvæmt einstaklingsnámsskrám. Reynt er eftir fremsta megni að láta nemendur fylgja umsjónarbekk sínum. Deildin í Fellaskóla hefur sérhæft sig í atferlismótun.

Samstarf við sérfræðiþjónustu
Með sérfræðiþjónustu grunnskóla er átt við skipulag, vinnubrögð og verkefni starfsfólks sem sinnir ýmsum sérfræðiverkefnum innan grunnskólastarfsins og starfar bæði í einstökum skólum, á skóla-og frístundasviði Reykjavíkurborgar eða Þjónustumiðstöð Breiðholts.

Hlutverk og viðfangsefni sérfræðiþjónustu gagnvart nemendum í grunnskólum
Hlutverk sérfræðiþjónustu grunnskóla er að styðja við nám allra nemenda í grunnskólum. Verkefni sérfræðiþjónustu snúa bæði að nemendum og starfsfólki í skólunum og byggja að mestu á ákvæðum reglugerðar 584/2010 um sérfræðiþjónustu sveitarfélaga og nemendaverndarráð og reglugerðar 585/2010 um
nemendur með sérþarfir.

Fellaskóli á í nánu samstarfi við og sækir þjónustu sálfræðinga, félagsráðgjafa, kennsluráðgjafa og sérkennsluráðgjafa til Þjónustumiðstöðvar Breiðholts. Faglegt starf ráðgjafanna er fjölþætt og snýr meðal annars að ýmsum greiningum, ráðgjöf og almennri sálfræðiþjónustu. Skilyrði fyrir því að sálfræðingur taki mál til vinnslu er að foreldrar veiti samþykki sitt á sértöku tilvísunareyðublaði sem fyllt er út í samvinnu við umsjónarkennara. Allar tilvísanir fara fyrir nemendaverndarráð. Eyðublaðið er hægt að nálgast hjá umsjónarkennurum og skrifstofu skólans.
Sérstakur stuðningur við nemendur
Í Fellaskóla fer nám nemenda fram í bekk eða í námshópum. Lögð er áhersla á sveigjanlega starfshætti og það viðurkennt að nemendur eru misfljótir að ná settum markmiðum. Sérkennsla felur í sér breytingar á
námsmarkmiðum og/eða kennsluaðferðum miðað við það sem öðrum nemendum á sama aldri er boðið upp á. Sérkennsla er skipulögð til lengri eða skemmri tíma, allt eftir þörfum nemenda. Fellaskóli hefur frá upphafi haft á að skipa fjölbreyttum sérkennsluúrræðum og er litið svo á að sérkennsla sé stuðningur við nemanda eða hóp nemenda sem þarfnast tímabundinnar aðstoðar eða samfellds stuðnings um lengri tíma.

Sérkennsla felur í sér breytingar á námsmarkmiðum og/eða kennsluaðferðum miðað við það sem öðrum nemendum á sama aldri er boðið upp á. Sérkennsla er skipulögð með ýmsum hætti. Nemendur fá aðstoð innan og utan bekkja, kennslu í smærri hópum og/eða einstaklingskennslu. Einnig er svokallað tveggja/þriggja kennara
kerfi þar sem sérkennari vinnur með árgangakennara eða kennurum. Árgangi er skipt í minni hópa í tengslum við námsaðlögun og þarfir nemenda. Nemendur sem njóta sérkennslu stunda nám samkvæmt einstaklingsnámskrá.

 

Til að koma betur til móts við ólíkar þarfir nemenda hefur Fellaskóli komið sér upp lítilli séraðstöðu í íþróttahúsinu.  Þar geta nemendur með sérþarfir eða þeir sem ekki geta tekið þátt í hefðbundnum íþróttatíma notað hluta úr kennslustundinni eða allan tímann til æfinga. Einnig er sértæk sundkennsla í boði fyrir nemendur.

Sérkennsluþörf nemenda grundvallast á faglegu mati, greiningum og niðurstöðum skimana og könnunarprófa.Í skólanum eru starfrækt þrjú námsver, eitt á yngsta stigi, annað á miðstigi og það þriðja þjónar nemendum í unglingadeild. Nemendur sem sækja námsver skólans stunda nám sitt samkvæmt einstaklingsnámskrá og sækja þangað stuðning einkum í íslensku og stærðfræði. Að öðru leyti fylgja þessir nemendur sínum hópi.

Sértæk líkamsrækt
Til að koma betur til móts við ólíkar þarfir nemenda hefur Fellaskóli komið sér upp líkamsræktartækjasal í íþróttahúsinu. Þar geta nemendur með sérþarfir, eða þeir sem finna sig ekki í hópíþróttum, notað hluta úr kennslustundinni eða allan tímann til æfinga undir stjórn íþróttakennara. Einnig er boðið upp á tíma í tækjasal sem valgrein í unglingadeild.

Þroskaþjálfi
Þroskaþjálfi starfar með öllum nemendum skólans þrátt fyrir að megin áherslan í starfinu liggi hjá nemendum yngsta stigs. Þroskaþjálfi veitir fjölbreytta félagsfærniþjálfun og atferlismótun auk þess að bjóða upp á fjölbreytt
einstaklingsmiðuð sérúrræði fyrir nemendur. Gott dæmi um verkefni sem þroskaþjálfi sinnir og kviknaði út frá þörfum einstaklinganna er þjálfun fyrir kvíðna nemendur sem eiga erfitt með að takast á við frímínútur. Þá sinnir þroskaþjálfi árlega verkefnum eins og Stig af stigi og Vinir Zippýs í félagi við námsráðgjafa.

Samkvæmt 17.gr. laga um grunnskóla nr.91/2008, eiga nemendur sem að mati læknis geta ekki sótt skóla vegna slyss eða langvarandi veikinda rétt til sjúkrakennslu annaðhvort á heimili sínu eða á sjúkrastofnun. Um einstaklingskennslu er að ræða sem fer eftir þörfum nemenda.

Sjúkrakennslan er skipulögð af skólastjórnendum í samráði við fagaðila.

1.bekkur:          Reglubundin viðtöl og skoðanir eru sem hér segir:

Þau börn sem ekki hafa fengið fimm ára skoðun fá bólusetningu gegn barnaveiki, stífkrampa og kíghósta auk læknisskoðunar. Foreldrar eru boðaðir með börnunum. Öll 6 ára börn eru heyrnarmæld, sjónprófuð, vigtuð og hæðarmæld.

 1. bekkur: Sjónpróf.
 2. bekkur: Slysafræðsla.
 3. bekkur: Mæld hæð, þyngd og sjónprófað.
 4. bekkur: Fræðsla um líkamlegar- og andlegar breytingar svo og um almenna heilsuvernd.
 5. bekkur: Skoðun hjúkrunarfræðings, litarskyn athugað. Sjónpróf og hæðarmæling. Bólusetning gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum.
 6. bekkur: Heyrnarmæling, sjónpróf, vigtun og hæðarmæling. Fræðsla um ýmsa kvilla, sjúkdóma og heilsuvernd. Viðtal við skólalæknir

10.bekkur:        Skyndihjálp.

Berklapróf: Búið er að afnema berklapróf í skólum nema hjá innflytjendum, einkum frá svæðum þar sem berklar eru útbreiddir.

Íslenskukennsla innflytjenda gerir kröfur um einstaklingsmiðaða kennsluhætti enda einstaklingsmunur innflytjenda auðvitað jafn mikill og annara nemenda. Í Fellaskóla er litið svo á að móttaka og kennsla innflytjenda sé ekki einkamál nýbúakennara heldur sameiginlegt verkefni allra þeirra sem með börnunum starfa.

Segja má að nám þeirra nemenda sem eru nýfluttir til landsins skiptist í þrennt. Móttöku, íslenskunám í námsveri og íslenskunám samtvinnað bekkjarstarfinu.

Markmið:
Að kenna nemendum sem eru innflytjendur íslensku sem annað mál. Unnið er samkvæmt Aðalnámsskrá grunnskóla og tekið mið af aldri, þroska og þörfum hvers nemenda. Náminu er skipt niður í þrep sem miðast við kunnáttu í íslensku þ.e. byrjendur, lengra komnir og lengst komnir. Nemendur geta verið staddir á ýmsum þrepum á hverju skólastigi óháð aldri og almennum þroska.

Inntak náms:
Byrjendur: Í upphafi læra nemendur grunnorðaforða um skóla, heimili, fjölskyldu, líkama, mat, fatnað, tölur, liti, daga og mánuði. Nemendur læra einnig algengar setningar sem koma að góðum notum í daglegu lífi. Byrjað að kynna íslenska málfræði.

Lengra komnir: Nemendur auka orðaforða, lestur, hugtaka og lesskilning. Lögð er áhersla á framburð, framsögn, tjáningu og rétta setningaskipan. Nemendur geti tjáð eigin hugmyndir og tekið virkan þátt í skólastarfi. Unnið áfram með málfræði.

Lengst komnir: Nemendur taka aukinn þátt í bekkjarstarfi og vinna með orðaforða tengdan námsgreinum. Geti notað orðatiltæki og íslensk slanguryrði á viðeigandi hátt. Unnið er áfram með málfræði.

Kennsluskipan:
Þegar nýr nemandi af erlendum uppruna byrjar í skólanum innritast hann í almennan bekk en er fyrstu tvær vikurnar í námsveri nýbúa. Eftir þann tíma sækir nemandinn almenna tíma í bekknum sínum. Tímafjöldi í námsveri nýbúa er einstaklingsbundinn og ræðst hann fyrst og fremst af aldri, þroska og stöðu nemanda.
Kennsluaðferðir og kennslugögn eru afar fjölbreitt. Námið er bæði einstaklings- og hópmiðað. Hlustun, skilningur, framburður og ritun er þjálfað með ýmsu móti, svo sem með leikjum, söngvum, spilum, samtölum, lestri, hermiaðferð, sýnikennslu, dagblaðavinnu, vettvangsferðum, föndri og tölvuverkefnum.

Námsgögn:
Ýmis verkefni, bækur, spil og tölvuforrit sem hæfa nemendum af erlendum uppruna.