Skólareglur

Home/Skólareglur
Skólareglur 2017-04-10T23:34:50+00:00

 Sækja sem PDF

Skólareglur

Í Fellaskóla er lögð áhersla á samvinnu allra sem í skólanum starfa við að byggja upp jákvæðan skólaanda og stefnt er að því að allir finni sig vera á heimavelli. Skólareglur Fellaskóla eru byggðar á 30. grein laga um grunnskóla 91/2008 og reglugerð nr. 1040/2011 um skólareglur í grunnskólum.

Í 9. grein reglugerðarinnar segir meðal annars:

Í skólareglum  skal m.a.  kveðið á um almenna umgengni, samskipti, háttsemi, stundvísi, ástundun náms, hollustu og heilbrigðar lífsvenjur, ábyrgð, réttindi og skyldur. Í reglunum skal koma fram hvernig skólinn hyggst bregðast við brotum á þeim.

Skólareglur Fellaskóla eru í tveimur hlutum. Annars vegar er um að ræða stuðning við jákvæða hegðun undir einkunnarorðunum virðing, ábyrgð og vinsemd. Reglurnar eru birtar í reglufylki á ná til allra svæða skólans. Hins vegar er um að ræða almennar skólareglur í eftirfarandi níu liðum. Nánari upplýsingar um skólareglurnar má finna á heimasíðu skólans.

Brjóti nemandi skólareglur fylgja því viðurlög sem nánar verður gerð grein fyrir hér á eftir. Eru forráðamenn hvattir til að fara vel yfir reglurnar og viðurlög við broti á þeim með börnum sínum.

 

Umgengni

Nemendur skulu ávallt koma fram af prúðmennsku og háttvísi í skólanum og þar sem þeir eru á vegum skólans. Nemendum ber að fara að fyrirmælum starfsmanna skólans. Hegðun sem veldur truflun og kemur í veg fyrir að hver og einn nemandi geti nýtt sér kennslustundir til fulls er óleyfileg og getur varðað brottvísun r kennslustund. Ofbeldi í hvaða mynd sem er, er stranglega bannað. Óheimilt er að vera í yfirhöfnum og skóm í kennslustundum.

 

Stundvísi

Nemendur skulu mæta stundvíslega og með viðeigandi námsgögn. Fjarvistir vegna veikinda skulu tilkynntar skólanum samdægurs í síma 4117530. Ef forföll eru ekki tilkynnt samdægurs af forráðamanni nemanda er litið svo á að um óheimila fjarvist sé að ræða. Umsjónarkennari getur veitt nemanda leyfi í 2 daga en lengri leyfi þarf að sækja um til skólastjórnenda á þar til gerðum eyðublöðum.

 

Samskipti


Rík áhersla er lögð á háttvísa framkomu og kurteisi og að samskipti einkennist af virðingu. Aðgerðir starfsfólks eru samræmdar og hafa það að markmiði að styrkja jákvæða hegðun og hafa hugtökin virðing, ábyrgð og vinsemd verið sett í öndvegi. Skólanum er skipt upp í svæði þar sem skilgreint er hvaða hegðun er við hæfi og settar fram reglur þar sem fram kemur til hvers er ætlast af nemendum.

Heilbrigðar lífsvenjur

Fellaskóli er þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi Breiðholt og lögð er áhersla á að nemendur skólans temji sér hollar og heilbrigðar lífsvenjur. Reykingar og notkun áfengis og fíkniefna er stranglega bönnuð í skólanum, á skólalóð, í nágrenni skólans (s.s. á/við göngustíg) og alls staðar þar sem nemendur eru á vegum skólans.

Á skólalóð skulu nemendur sýna aðgæslu og tillitssemi. Nemendur í 1. – 7. bekk eru úti í frímínútum og er þeim óheimilt að fara út af skólalóð. Notkun hjóla, hlaupahjóla, hjólabretta, línu- og/eða hjólaskauta og hjólaskóa er bönnuð á skólalóð og í skólanum.

 

Viðurlög við brotum á skólareglum

Vandamál vegna hegðunar nemenda eru leyst í samvinnu við nemendur og forráðamenn. Með agabrot er farið samkvæmt vinnureglum skólans, reglugerð um agabrot og skólareglur og verklagsreglum Reykjavíkurborgar. Málsatvik eru skráð í nemendabókhaldskerfi skólans.

 

Óæskileg hegðun er skráð af starfsmönnum í Mentor undir ástundun og dagbók nemenda. Hegðunarfrávikum er skipt upp í þrjú stig.

1. stigs hegðunarfrávik og viðurlög

Til 1. stigs hegðunarfráviks telst:

 •      þras/ögrun/rifrildi
 •      truflar athafnir/leiki/vinnu annarra
 •      gengur illa um
 •      óviðeigandi snerting

Sá starfsmaður sem verður vitni að atburðinum, tekur nemandann til hliðar og ræðir alvarlega við hann. Nemanda er leiðbeint og lögð áhersla á að hann skilji hvaða reglu hann braut og viti hvernig hann á að bregðast við næst. Lögð er áhersla á að kennari/starfsmaður hvetji nemanda til að bæta sig og hrósi honum fyrir samvinnu. Atburðurinn er skráður undir ástundun og dagbók nemandans í Mentor.

2. stigs hegðunarfrávik og viðurlög

Til 2. stigs hegðunarfráviks telst:

 •      særandi/niðrandi orðbragð/hæðni
 •      óhlýðni/neitar að fylgja fyrirmælum
 •      ósannsögli/svik/svindl
 •    áreiti/hrekkir/stríðni
 •      annað (s.s. brottvísun úr tíma)

Sá kennari, sem verður vitni að atburðinum hefur samband við forráðamenn. Verði starfsmenn vitni að 2. stigs hegðunarfráviki láta þeir umsjónarkennara viðkomandi nemanda vita. Umsjónarkennari tekur við málinu þaðan, hefur samband við forráðamenn og óskar eftir samstarfi við að aðstoða nemandann. Atburðurinn er skráður undir ástundun og dagbók nemandans í Mentor.

Sá kennari sem þarf að grípa til þess neyðarúrræðis að vísa nemanda úr kennslustund eða ef nemandi yfirgefur kennslustund án leyfis hringir sjálfur heim til nemandans, gerir grein fyrir ástæðu brottvísunar/brotthvarfs og óskar eftir samstarfi við heimilið um að veita nemandanum tiltal.

3. stigs hegðunarfrávik og viðurlög

Til 3. stigs hegðunarfráviks telst:

 •      ofbeldi/slagsmál/ógnandi hegðun
 •      skemmdarverk
 •      þjófnaður
 •      annað (s.s. vopn, eldfæri, reykingar og fíkniefni)

 

Nemandinn er tekinn úr aðstæðum. Umsjónarkennari eða skólastjórnandi hafa samband við heimili geranda og óska eftir að nemandinn verði sóttur eða heimilið taki á móti nemandanum. Einnig hefur skólastjóri samband við heimili þolanda og leitar heimildar forráðamanna til lausnar málsins innan skólans. Ólögleg hegðun er tilkynnt lögreglu.

Atburðurinn er skráður í undir ástundun og dagbók nemandans í Mentor. Meginreglan er sú að boðað er til fundar með forráðamönnum, nemanda, umsjónarkennara og skólastjórnanda áður en nemandinn fær að koma aftur í skólann.

Við úrvinnslu agamála er hægt að kalla til ýmsa aðila t.d. námsráðgjafa, sérkennara, sálfræðing, félagsráðgjafa, hjúkrunarfræðing o.fl. Einnig er hægt að vísa málum til nemendaverndarráðs. Ef mál nemanda þróast þannig að kennarar, forráðamenn og stjórnendur í Fellaskóla finna ekki leið til úrbóta vegna agabrota hans getur þurft að vísa málinu til Þjónustumiðstöðvar Breiðholts, fræðsluyfirvalda í Reykjavík og/eða barnaverndaryfirvalda þegar það á við.

 

Viðbrögð við hegðunarfrávikum og alvarlegum brotum á skólareglum

Gerist nemandi sekur um alvarleg eða endurtekin brot á skólareglum er heimilt að vísa honum

tímabundið úr skóla meðan leitað er úrlausna á málum. Hið sama á við ef nemandinn virðir fyrirmæli æðstu stjórnenda skólans, þ.e. skólastjóra og aðstoðarskólastjóra, að vettugi. Við vinnslu slíkra mála er farið að verklagsreglum Reykjavíkurborgar sem fjalla um viðbrögð við hegðunar- og samskipavanda, skólasóknar- og ástundunarvanda og viðbrögð við lögbrotum og alvarlegum brotum nemenda á skólareglum.

Starfsmönnum skóla er óheimilt að neyta aflsmunar nema nauðsyn krefji til að stöðva nemandann og koma í veg fyrir að hann valdi sjálfum sér eða öðrum skaða eða eignatjóni. Í tilvikum sem þessum skal ávallt greina forráðamönnum frá málavöxtum.

Nemendur eru ábyrgir fyrir því tjóni sem þeir kunna að valda á eignum skóla, starfsfólks eða skólafélaga sinna.

 

Skólabragur og stefna gegn ofbeldi

Í Fellaskóla er lögð áhersla á að jafnt nemendur sem starfsmenn eigi góð og gefandi samskipti. Markvisst er unnið að því að auka félagsfærni nemenda, seiglu og trú þeirra á eigin getu. Þá er kappkostað að vinna fyrirbyggjandi starf gegn einelti og óæskilegri hegðun.

 

Erfiðleikar í samskiptum

Ef upp koma erfiðleikar í samskiptum/hegðun sem þó ekki teljast einelti er brugðist við á eftirfarandi hátt:

 •      Forráðamenn tali við barn/börn sín, kennari eða námsráðgjafi ræði við börnin.
 •      Fylgst verður með hegðun barnanna í skólastofunni og öðrum skólaaðstæðum.
 •      Skólinn og forráðamenn hafa samráð um hvaða leiðir skulu farnar ef vísbendingar eru um að gamalt mál sé að taka sig upp.
 •     Heimili og skóli skerpi á einstaka samskiptaþáttum við börnin á heimili og í skóla.

 

Einelti

Í Fellaskóla er einelti ekki liðið. Vakni grunur um einelti er tilkynningareyðublað um einelti á heimasíðu skólans. Foreldri, fyrir hönd barns síns eða starfsfólk sem fær vitneskju um eineltishegðun, getur fyllt út eyðublaðið. Það skal berast skólastjóra eða aðstoðarskólastjóra.

Nánari upplýsingar um úrvinnslu eineltismála má finna í eineltisáætlun á heimasíðu. Rétt er að taka fram að eineltisáætlun Fellaskóla er í endurskoðun og verður ný og endurbætt áætlun kynnt á heimasíðu skólans í haust.

 

Bekkjarreglur og umsjónarmenn

Til viðbótar við skólareglur er hverjum bekk heimilt að setja sér bekkjarreglur. Í hverjum bekk eru umsjónarmenn en hlutverk þeirra er skilgreint af umsjónarkennara hvers bekkjar.

 

Reglur um tölvu- og farsímanotkun í skóla

Notkun snjalltækja, myndavéla og annarra raftækja er almennt bönnuð í kennslustundum og búningsherbergjum íþróttahúss og sundlaugar. Kennarar hafa þó heimild til að veita undanþágu frá þessum reglum í kennslustundum. Sjá nánar á heimasíðu.

 

Þjónusta við nemendur með fjölþættan vanda

Í skólanum er unnið samkvæmt Verklagsreglum skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs um þjónustu við grunnskólanemendur með fjölþættan vanda. Þessar verklagsreglur taka við ef skólareglur duga ekki til eða ákvæði þeirra eru fullreynd. Verklagsreglunum er ætlað að skapa vinnulag sem tryggir skilvirka samvinnu stofnana Reykjavíkurborgar við vinnslu mála þar sem vandi nemenda er alvarlegur og fjölþættur. Reglurnar má finna hér: http://reykjavik.is/sites/default/files/ymis_skjol/skjol_utgefid_efni/verklagsreglur_2012_breytingar_2015.pdf