Skip to content

Matreiðslukeppni Fellaskóla 2021

7. apríl og 11. maí sl. fór fram matreiðslukeppni Fellaskóla, sem fékk heitið Meistarakokkar Fellaskóla.
Nemendur í 7.-10.bekk öttu þar kappi í matreiðslugerð, með því að elda aðalrétt og eftirrétt á innan við 2 klukkustundum.
Nemendur fengu lista yfir hráefni sem þeir urðu að nota í aðalrétt, t.d. kjúkling og rauðlauk, en þeir máttu einnig bæta öðrum hráefnum við. Eftirréttur var svo alveg frjáls. Réttirnir voru svo dæmdir út frá bragði og útliti, auk þess sem hægt var að næla sér í aukaverðlaun fyrir gott hreinlæti.
Metnaður keppanda var mikill og mættu þeir til að æfa sig reglulega hjá heimilisfræðikennaranum í vikunni áður ásamt því að sumir elduðu fyrir fjölskyldur sínar heima til að æfa sig.
Keppnisdagarnir gengur stórkostlega, nemendur mættu skipulagðir, glaðir og kappsamir. Þeir reiddu fram hvern glæsiréttinn á eftir öðrum og áttu dómarar fullt í fangi með að gera upp á milli. Dómaraliðið var ekki af verri endanum, ásamt fulltrúa starfsfólks og fulltrúa nemanda fengum við til liðs með okkur Andrés matreiðslumann hjá Garra og Bjart Loga, bakara, frá Garra.
Í fyrri keppninni, hjá 9.-10.bekk, báru sigur úr býtum Kristin Ros og Liana, sem buðu upp á kjúklingapasta í rjómasósu með grænmeti og filippeyska köku og í seinni keppninni, hjá 7.-8.bekk voru það Eyrún og Ynja í 8.bekk sem unnu gullið með dýrindis kjúklingarétti með kartöflumús, djúpsteiktum gulrótum og rauðlauk og pönnuköku með súkkulaðisósu og ávöxtum í eftirrétt. Hreinlætisverðlaunin hlutu Alyssa og Djellza annars vegar og Mia og Cailyn hins vegar.

2

Keppnin fór fram úr björtustu vonum og verður hiklaust endurtekin að ári. Við í Fellaskóla eigum greinilega góðan hóp af framtíðar matreiðslumönnum og bökurum sem eru allir vegir færir í eldhúsinu.