Stoðþjónusta
Stoðþjónusta Fellaskóla felur í sér sérstaka aðstoð við nemendur og þá sem starfa með þeim. Stoðþjónustu tilheyra m.a. deildarstjóri, þroskaþjálfar, sérkennarar, námsráðgjafi og stuðningsfulltrúar. Stoðþjónusta er rekin í samræmi við lög um grunnskóla og reglugerð um nemendur með sérþarfir og reglugerð um skólaþjónustu í skólum.
Sérstakur stuðningur við nemendur
Í Fellaskóla fer nám nemenda fram í bekk eða í námshópum. Lögð er áhersla á sveigjanlega starfshætti og það viðurkennt að nemendur eru misfljótir að ná settum markmiðum. Fellaskóli hefur á að skipa fjölbreyttum stuðningsúrræðum þar sem stuðningur er veittur við nemanda eða hóp nemenda sem þarfnast tímabundinnar aðstoðar eða samfellds stuðnings um lengri tíma.
Sérkennsla felur í sér breytingar, í lengri eða skemmri tíma, á námsmarkmiðum og/eða kennsluaðferðum. Nemendur fá aðstoð innan og utan bekkja, kennslu í smærri hópum og/eða einstaklingskennslu. Einnig er svokallað tveggja/þriggja kennara kerfi þar sem sérkennari vinnur með öðrum kennurum. Nemendur sem njóta sérkennslu stunda nám samkvæmt einstaklingsnámskrá eða einstaklingsáætlun.
Þegar við á nýtir skólinn sér ráðgjöf og þjónustu Skólasels í Hamraskóla, Brúarskóla eða Klettaskóla. Þegar sótt er um fyrir nemendur í slík sérúrræði eða sérskóla er umsókn unnin í samstarfi við forráðamenn.
Heildaráætlun um stuðning í námi og kennslu
Samkvæmt reglugerðar um nemendur með sérþarfir nr. 585/2010 er grunnskólum gert að vinna árlega heildaráætlun um stuðning við nemendur í samræmi við ólíkar þarfir þeirra. Áætlunin er hluti af heildarskipulagi skólans og tekur til allra þátta skólastarfs. Annars vegar er hún hluti af og styður við skóla án aðgreiningar og hins vegar er henni ætlað að tryggja nemendum sérstakan stuðning og laga aðstæður að þörfum margbreytilegs nemendahóps.
Áætlunin er lýsing á því stuðningskerfi sem skólinn hefur skipulagt með tilliti til þarfa nemenda og er hún unnin í samstarfi við skólaþjónustu Þjónustumiðstöðvar Breiðholts. Í henni er gerð grein fyrir hvernig sérstökum stuðningi við nemendur er háttað í almennu skólastarfi og hvernig stuðningur og sérkennsla er skipulögð innan og utan námshópa. Þar kemur fram hvernig stoðkerfi skólans er uppbyggt, hverjir koma þar að, markmið þess og hvernig það tengist út í alla þætti skólastarfsins.
Einstaklingsáætlun
Einstaklingsáætlun er áætlun sem nemandi setur sér fyrir ákveðið tímabil í samvinnu við kennara sinn og forráðamenn, gjarnan í foreldraviðtali og hefur til þess ákveðið eyðublað eða form. Einstaklingsáætlun tekur almennt mið af getu nemanda, áhuga og námsstíl. Í áætluninni kemur fram hvaða markmiðum nemandinn hyggst ná í einstökum námsgreinum. Oft er tilgreint hvernig árangurinn verður metinn. Áætlunin byggir á markmiðum aðalnámskrár og skólanámskrár.
Einstaklingsnámskrá
Einstaklingsnámskrá er ítarleg áætlun fyrir nemanda með fötlun eða miklar sérþarfir. Hún er unnin af kennara í samráði við forráðamenn og nemandann sjálfan þegar við á. Þetta á einnig við um bráðgera nemendur. Einstaklingsnámskrá byggir á aðalnámskrá, en felur oftast í sér veruleg frávik frá henni og tekur til markmiða, inntaks, endurmats og leiða fyrir ákveðið tímabil.
Deildarstjóri ber ábyrgð á að gerð sé einstaklingsnámskrá, en hún er unnin af kennurum og fagaðilum eftir atvikum. Einstaklingsnámskrá tekur til námslegra- og/eða félagslegra þátta. Námsáherslur, námsefni og kennsluaðferðir eru aðlagaðar að þörfum nemandans. Í námskrá kemur fram hvernig nemandanum er mætt í skóla án aðgreiningar og upplýsingar sem gagnlegar eru varðandi nám, skólagöngu og virka þátttöku hans.
Samstarf við skólaþjónustu
Til stuðningskerfis stoðþjónustu teljast einnig allir þeir sérfræðingar utan skólans sem starfa með nemendum og starfsfólki. Þeir koma frá þjónustukerfum eins og heilbrigðis-, félags- eða skólaþjónustu skóla. Með skólaþjónustu skóla er átt við skipulag, vinnubrögð og verkefni starfsfólks sem sinnir ýmsum verkefnum innan grunnskóla og starfar bæði í einstökum skólum, á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar eða Þjónustumiðstöð Breiðholts.
Hlutverk skólaþjónustu grunnskóla er að styðja við nám allra nemenda. Verkefni skólaþjónustu snúa bæði að nemendum og starfsfólki og byggja að mestu á ákvæðum reglugerðar 584/2010 um skólaþjónustu sveitarfélaga og nemendaverndarráð og reglugerðar 585/2010 um nemendur með sérþarfir.
Fellaskóli á í nánu samstarfi við og sækir þjónustu sálfræðinga, félagsráðgjafa, og kennsluráðgjafa til Þjónustumiðstöðvar Breiðholts. Faglegt starf ráðgjafa er fjölþætt og snýr meðal annars að greiningum, ráðgjöf og almennri sálfræðiþjónustu. Skilyrði fyrir því að sálfræðingur taki mál til vinnslu er að forráðamenn veiti samþykki sitt á sértöku tilvísunareyðublaði sem fyllt er út í samvinnu við umsjónarkennara. Allar tilvísanir fara fyrir nemendaverndarráð. Eyðublaðið er hægt að nálgast hjá umsjónarkennurum og skrifstofu skólans.